Það er með miklu stolti þegar Record Records tilkynnir það að safnplatan This Is Icelandic Indie Music hefur náð gullsölu hér á Íslandi. This Is Is Icelandic Music kom út fyrir rúmu einu ári síðan og er hún fyrsta safnskífan sem kemur út á vegum hljómplötuútgáfunnar. Þetta er ekki fyrsta gullplatan af útgáfulista Record Records og er ekki langt liðið síðan önnur breiðskífa Mammút, Karkari, náði gullsölu. Að meðtalinni This Is Icelandic Indie Music eru nú gullplötur Record Records orðnar fjórar talsins og eru hinar ónefndu My Head Is an Animal með Of Monsters and Men og samnefnd þriðja breiðskífa Retro Stefson. Allar þessar hljómsveitir eiga einmitt lög á safnplötunni.
This Is Icelandic Indie Music er nú hluti af safnplötuseríu því í maí síðastliðnum kom út önnur skífan í röðinni og hefur henni einnig verið tekið vel. This Is Icelandic Indie Music gefur góðan þverskurð á því sem var í gangi í íslensku tónlistarsenunni fyrir rúmu ári síðan og inniheldur hún samtals tólf lög með jafnmörgum flytjendum. Hana má nálgast í öllum helstu verslunum sem selja tónlist á Íslandi og einnig í gegnum vefverslun Record Records.

Deila