Óháða hljómplötuútgáfan Record Records er afkvæmi hins unga og atorkusama tónlistarunnanda Haralds Leví Gunnarssonar. Starfsemi útgáfunnar hófst síðla árs 2007 og var í byrjun mjög smá í sniðum enda var Haraldur eini starfsmaður útgáfunnar og útgáfan upprunalega hugsuð sem tómstundargaman. Hann starfaði á þeim tíma sem starfsmaður í hljómplötuverslun og lamdi húðir í rokksveitinni Lada Sport. Í frístundum sínum lagði hann svo drög að því hvernig væri hentugast að halda úti óháðri hljómplötuútgáfu í litlu landi með nánast engri yfirbyggingu. Til að byrja með dreifði hann fyrir upprennandi tónlistarmenn og var lagerinn í bílskúr foreldra hans í Hafnarfirði.
Enginn asi var á að drífa í fyrstu útgáfunni heldur að fara rólega í sakirnar og bíða frekar eftir réttu hljómsveitinni. Rétt tæpu ári eftir stofnun leit fyrsta útgáfan dagsins ljós sem var önnur breiðskífa hljómsveitarinnar Mammút, Karkari.
Á starfsferli sínum hefur útgáfan náð að vaxa hægt og þétt og af mikilli alúð. Heildarútgáfa Record Records nálgast fimmta tug breið-, smá og þröngskífur með hljómsveitum á borð við Of Monsters and Men, Retro Stefson, Moses Hightower, Mono Town, FM Belfast, Ojba Rasta, Tilbury, Agent Fresco, Sykur, Ensími o.fl.
Frá stofnun útgáfunnar hefur Haraldur haft að örfá markmið að leiðarljósi og þau eru að vinna vel og náið með tónlistarmönnum, sýna heiðarleika og heiðarleika í samskiptum og starfi og aldrei að gefa út tónlist nema hún sé á einhvern máta áhugaverð og framúrskarandi.
Þrátt fyrir farsælt gengi Record Records er yfirbyggingin enn þann dag í dag jafnt sem engin og auk Haralds starfar einn starfsmaður í dreifingu á geisladiskum og vínilplötum fyrir íslenskan markað.