Record Records kynnir með stolti útgáfu á fyrstu og langþráðri breiðskífu reykvísku hljómsveitarinnar Mono Town og verður hún fáanleg í vefverslun útgáfunnar núna á mánudaginn. Breiðskífan heitir „In The Eye of the Storm“ og hefur hún verið í verið í smíðum í þrjú ár svo að segja.
„In The Eye of the Storm“ er frumburður hljómsveitarinnar og á augabragði heyrist að hún hefur nostrað við hvert einasta smáatriði á plötunni sem er ákaflega vel samin og útsett. Í grunninn spilar hljómsveitin hljómfagurt og melódískt rokk sem sækir áhrif sín víða og bliknar hún hvergi hjá í samanburði við erlendar sveitir eins Midlake, Caveman, Fleet Foxes og Radiohead, svo nokkur dæmi séu tekin. Hljómur plötunnar er fádæma góður og segja má það sama um allan tónlistarflutning sem ekki er framkvæmdur af aukvissum. Radd- og strengjaútsetningar gefa plötunni mjög myndrænan og tignarlegan blæ sem á köflum kalla fram skírskotanir í ekki ómerkari tónskáld á borð við Ennio Morricone og Serge Gainsbourg.
„In The Eye of the Storm“ var gerð fáanleg hjá tónlistarstreymiþjónustunni Deezer í lok janúar og eru notendur þar eru afar hrifnir af henni þar sem hún komst í fyrsta sæti á lista yfir mest streymdu plötunnar í löndum eins og Íslandi, Kanada, Brasilíu, Írlandi, Ítalíu og Tyrklandi. Tónlistarveitan er opin í rúmlega 180 löndum og mánaðarlega eru þar um 12 milljónir virkir notendur. Það eru ekki bara notendur Deezer sem eru hrifnir af sveitinni því hin bandaríska hljómsveit Pixies bauð Mono Town að hita upp fyrir sig á tónleikaferð sinni um Norðurlönd í lok síðasasta árs. Starfsmenn útvarpstöðvarinnar KEXP í Seattle féllu í stafi þegar þau heyrðu í hljómsveitinni fyrst fyrir um einu og hálfu ári og hafa hlustendur víða um heim tekið mjög vel í sveitina og sama má segja um hlustendur Rásar 2 sem eru mjög hrifnir.
Mono Town skipa bræðurnir Börkur Hrafn og Daði Birgissynir ásamt Bjarka Sigurðssyni sem eru allir laga- og textahöfundar sveitarinnar. Þeim til aðstoðar eru meðal annars þeir Guðmundur Óskar Guðmundsson og Magnús Trygvason Elíassen.

Deila