Út er komin önnur skífan í útgáfuröðinni This Is Icelandic Indie Music. Sú fyrsta kom út vorið 2013 og tróndi hún á topp 10 yfir mestu seldu plötur á Íslandi í marga mánuði enda hefur hún selst í fimmþúsund eintökum telst mjög gott fyrir sölu á safnplötu hérlendis.
Á This Is Icelandic Music Vol. 2 er að finna þrettán lög jafnmargra flytjenda og af þeim eru fjögur sem ekki hafa komið út áður. Allir flytjendurnir gefa út tónlist sína hjá Record Records og eru þeir þrettán talsins sem eiga lög á skífunni sem fáanleg verður á geisladisk, vínil og á stafrænu formi. Áþreifanlegu eintökin verða eingöngu fáanleg á Íslandi og í gegnum heimasíðu Record Records. Stafræna útgáfan verður fáanleg í öllum helstu starfænu tónlistarveitum heimsins.
Óhætt er að segja að Mammút hafi komið, séð og sigrað með þriðju breiðskífu sinni Komdu til mín svarta systir sem kom út í fyrra. Hún var valin af flestum fjölmiðlum landsins besta breiðskífa ársins 2013 og sópaði einnig til sín verðlaunum á Íslensku tónlistarverðlaununum sem og á Kraumslistanum 2013. Reggísveitin Ojba Rasta fylgdi eftir velheppnaðri jómfrúarskífu sinni frá árinu 2012 með plötunni Friður sem m.a. prýðir lögin „Einhvernvegin svona“ og „Ég veit, ég vona“. Fyrsta breiðskífa stuðsveitarinnar FM Belfast hjá Record Records er þeirra þriðja og heitir Brighter Days. Ein metnaðarfyllsta rokksveit Íslands síðari ára er án efa Agent Fresco og má fullyrða að væntanleg breiðskífa þeirra sé með þeim langþráðari í rokkheimum á árinu 2014. Rokksveitin Benny Crespo‘s Gang hefur ekki sent frá sér nýja breiðskífu síðan samnefnd frumraun þeirra kom út árið 2007 og eru það sannarleg gleðitíðindi að ný plata komi út í ár. Leaves sendu frá See You In The Afterglow sem er þeirra fjórða breiðskífa og er hún að mati margra þeirra besta hingað til. Mono Town gáfu í ár út frumburð sinn sem inniheldur m.a. hið íðifagra „Peacemaker“ sem er eitt vinsælasta lagið á árinu 2014 enn sem komið er. In The Eye Of The Storm er einstaklega heilsteypt og hnitmiðað byrjendaverk sem sækir innblástur til meistara á borð við Serge Gainsbourg, Ennio Morricone og fleiri dægurlagahöfunda samtímans. Nýjasti meðlimur Record Records-fjölskyldunnar er hinn hæfileikaríki lagahöfundur Júníus Meyvant frá Vestmanneyjum og höfum við óbilandi trú á honum. Hin frábæra Lay Low hefur verið virkur meðlimur í íslensku tónlistarsenunni í rúman áratug og er fjórða breiðskífa hennar Talking About The Weather hennar besta hingað til. Tilbury er sérstæð jaðarpoppsveit sem kom sá og sigraði með fyrstu breiðskífu sinni Exorcise árið 2012 og er ekki orðum ofaukið að hún hafi toppað sig á annarri skífu sinni, Northern Comfort, sem leit dagsins ljós haustið 2013. Sigursveit Músíktilrauna árið 2013 var rafpoppsveitin Vök úr Hafnarfirði og var mat margra tónlistarspekinga að þau séu með fullmótaðri sveitum sem hafa borið sigur úr býtum síðustu ár. Hymnalaya komið skemmtilega á óvart með sinni hógværu og víðfermdu frumraun Hymns vorið 2013 sem náði m.a. að heilla hljómsveitina Of Monsters and Men og bandarísku útvarpsstöðina KEXP uppúr skónum. Snorri Helgason sneri til leiks á ný á árinu 2013 með sína heilsteyptustu breiðskífu hingað til og var það jafnframt fyrsta breiðskífa hljómsveitarinnar Snorri Helgason.
Lagalisti This Is Icelandic Indie Music vol. 2 er þessi:

1. Mammút – Blóðberg (af plötunni Komdu til mín svarta systir, 2013)
2. Ojba Rasta – Ég veit ég vona (af plötunni Friður, 2013)
3. FM Belfast – Brighter Days (af plötunni Brighter Days, 2014)
4. Agent Fresco – Dark Water (af væntanlegri plötu, 2014)
5. Benny Crespo’s Gang – Birthmarks (af væntanlegri plötu, 2014)
6. Leaves – Ocean (af plötunni See You In The Afterglow, 2013)
7. Mono Town – Peacemaker (af plötunni In The Eye Of The Storm, 2014)
8. Júníus Meyvant – Color Decay (af væntanlegri plötu, 2015)
9. Lay Low – Gently (af plötunni Talking About The Weather, 2013)
10. Tilbury – Turbulence (af plötunni Northern Comfort, 2013)
11. Vök – Before (af stuttskífunni Tension, 2013)
12. Hymnalaya – In My Early Years (af plötunni Hymns, 2013)
13. Snorri Helgason – Kveðja (af plötunni Autumn Skies, 2013)

Deila