Júníus Meyvant lauk nýverið við upptökur á sinni fyrstu hljómplötu sem hefur verið í vinnslu um nokkurt skeið. Platan ber heitið „Floating Harmonies“ og kemur hún út 8. Júlí nk. Platan kemur út um allan heim en verður fáanleg í eiginlegum eintökum í Evrópu fyrst um sinn. Record Records gefur út.

Þá sendir Júníus Meyvant frá sér nýtt lag af plötunni og er það komið út og ber það heitið „Neon Experience“. Lagið gefur gott dæmi um það sem vænta má af væntanlegri plötu Júníusar ásamt lögunum sem voru á þröngskífu hans (EP) sem kom út á síðasta ári.

Floating Harmonies var tekin upp á Íslandi í Orgelsmiðjunni, Finnlandi og fleiri stöðum. Upptökumenn voru Magnús Øder, Finnur Hákonarson, Andri Ólafsson og Júníus Meyvant. Hljóðblöndun var í höndum Magnúsar Øder og tónjöfnun (e. Mastering) í höndun Glenn Shick.

Hljómsveit Júníusar Meyvants sem við kjósum nú að kalla í höfuðið á þessari fyrstu breiðskífu Júníusar, Floating Harmonies, er skipuð Árna Magnússyni, Kristofer Rodriguez og bræðrum Júníusar, þeim Guðmundi Óskari og Ólafi Rúnari.
Ásamt þeim var stór og flottur hópur tónlistarfólks sem spilaði á plötuna.

Plötuumslagið er listaverk eftir Júníus Meyvant.

Floating Harmonies

Deila